Er ferðaþjónusta góð hugmynd fyrir Ísland?
- Gunnar Axelsson
- Aug 5
- 4 min read

Þrátt fyrir að Ísland sé orðið eitt af “ferðaþjónustulöndum”heimsins, þá hefur þeirri spurningu varla verið svarað innan stjórnmálanna hér á landi. Þó sennilega megi færa góð rök fyrir því að það sé í reynd of seint að spyrja þeirrar spurningar, þ.e. ferðaþjónusta er nú þegar orðin ein stærsta atvinnugrein landsins, þá er það bæði eðlilegt og sjálfsagt í lýðræðissamfélagi að slík umræða eigi sér stað.
Ferðaþjónusta hefur jú marga augljósa kosti og hún mátti alveg styrkjast frá því sem var i upphafi aldar. Með auknum ferðamannastraumi hefur ýmislegt gott bæst við samfélagið okkar og margir sem hafa lifibrauð sitt af þjónustu við ferðamenn.
Þegar hvert viðbótarstarf sem verður til í ört vaxandi mannaflsfrekri láglaunaatvinnugrein kallar að jafnaði á innflutning á ódýru vinnuafli, eins og það hefur verið a.m.k. síðasta áratug, þá ættu hinsvegar viðvörunarbjöllurnar að vera farnar að hringja.
Þó að ferðaþjónusta geti svo sannarlega falið í sér efnahagslegan ávinning þá fylgja henni öllu jafna miklar efnahagslegar og samfélagslegar áskoranir. Ein af þeim áskorunum er svokallaður efnahagsleki, sem á sér stað þegar stór hluti hagnaðarins af ferðaþjónustu rennur beint út til heimalanda þeirra erlendu stórfyrirtækja sem eiga og reka ferðaþjónustufyrirtækin á viðkomandi áfangastað,sem skilur áfangastaðinn eftir með takmarkaðan fjárhagslegan ávinning.
Ferðaþjónusta getur einnig haft veruleg áhrif á framfærslu þeirra sem búa í ferðaþjónustulandi eða vinsælum áfangastöðum innan viðkomandi lands og eru áhrifin ekki alltaf bara jákvæð, þar sem aukin eftirspurn eftir nauðsynjum á borð við matvæli og húsnæði getur haft veruleg neikvæð áhrif á lífskjör heimafólksins. Áhrifin á ýmsa grunninnviði og aukinn þrýstingur á grunnþjónustu, m.a. heilbrigðiskerfið, er sömuleiðis vel þekkt afleiðing af örum vexti ferðaþjónustu. Íbúarnir njóta hinsvegar gjarnan ýmissra jákvæðra áhrifa líka, ekki síst íbúar bæja og þorpa þar sem íbúafjöldinn er lítill og rekstrargrundvöllur ýmissrar þjónustu takmarkaður. Þá getur ferðaþjónustan haft ýmis jákvæð áhrif, t.d. skapað grundvöll fyrir rekstri ýmissra þjónustutengdra greina, t.d. veitingarekstri, sem ekki aðeins nýtist gestum viðkomandi áfangastaða heldur einnig og ekki síður þeim sem þar búa.
Ferðaþjónustu fylgir einnig talsverð efnahagsleg áhætta, sérstaklega í þeim löndum þar sem umfang hennar er hlutfallslega mikið. Lönd sem eru efnahagslega háð ferðaþjónustu, líkt og Ísland er orðið í dag, búa almennt við meiri áhættu en þau ríki sem hafa fjölbreyttari og styrkari efnahagsstoðir. Ferðaþjónusta er jú ein af þeim atvinugreinum sem er hvað viðkvæmust fyrir efnahagslegum og pólitískum óstöðguleika í heiminum.
Það hversu mikil áhrif samdráttur í ferðaþjónustu á alþjóðavísu hefur á efnahag einstakra ríkja ræðst auðvitað af því hversu umfangsmikil hún er sem hlutfall af landsframleiðslu viðkomandi lands. Þar er Ísland í hópi þeirra ríkja sem stóla hvað mest á ferðaþjónustu en árið 2024 er áætlað að hlutur ferðaþjónustu hafi numið 8,1% af vergri landsframleiðslu hér á landi og um 13% starfandi einstaklinga hér á landi hafi starfað innan einkennandi atvinnugreina ferðaþjónustu.
Það sem allir ættu að geta verið sammála um í dag er að þó að ekki sé endilega raunhæft né skynsamlegt að þvinga fram róttækar breytingar í atvinnugreininni eins og hún er í dag, þá er ekki endilega skynsamlegt heldur fyrir íslenska þjóðarbúið og samfélagið að halda áfram með stjórnlausan vöxt mannaflsfrekrar láglaunaatvinnugreinar. Það getur í raun aldrei talist skynsamleg stefna fyrir þróað ríki með hátt velferðar- og menntastig.
Það er einfaldlega formúla sem líklega eru engin dæmi um í hagsögu heimsins að hafi gengið vel. Það eru því ekki nein ný sannindi að ferðaþjónusta sé ekki endilega ákjósanlegur kostur fyrir þróuð velferðarríki með hátt mennta- og velferðarstig. Enda hafa mörg ríki lagt áherslu á að takmarka vöxt ferðaþjónustunnar og koma í veg fyrir að hlutdeild hennar í landsframleiðslu vaxi út fyrir þau mörk sem geta talist sjálfbær, ekki síst hvað vinnumarkaðinn snertir.
Umræðan á Íslandi einkennist hinsvegar oft og iðulega af þeirri hugmyndafræði að vexti fylgi eingöngu kostir og kröftugur vöxtur landsframleiðslunnar sé ávallt merki að málin séu að þróast í rétta átt, óháð því á hverju hann byggir. Slík umræða felur óhjákvæmilega í sér tilhneigingu til þöggunar, þ.e. að gagnrýnin og heilbrigð umræða sé slegin niður með þeim orðum að sá eða sú sem bendir á möguleg heildaráhrif t.a.m. af hröðum vexti einstakra atvinnugreina og mögulegum ruðningsáhrifum, sé á móti eðlilegri og jákvæðri framþróun í atvinnumálum og jafnvel andstæðingur frjálsra viðskipta.
Slík umræðumenning, sem líkja má við pólitíska trúarsetningu fremur en upplýsta umræðu byggða á vísindalegum grunni, er ekki líkleg til að skila skynsamlegri stefnumörkun í efnahags- og atvinnumálum og bættum lífskjörum fyrir íbúa landsins. Þvert á móti skilar slík nálgun frekar viðvarandi ójafnvægi í efnahagsmálum, enda endurspeglar hún öðru fremur stefnuleysi.
Stefnuleysi, sem er ein af meginástæðum þess að íslensk efnahagslíf sveiflast tíðar og meira en þekkist í flestum öðrum ríkjum sem við viljum gjarnan horfa á sem fyrirmyndir og bera okkur saman við. Auðvitað spilar smæð og fábreytni hins opna íslenska hagkerfis þar stóra rullu en ef rétt er að verki staðið og langtímahugsun fær að vera í forgrunni í stað endalausra skyndilausna, er alls ekki útilokað að viðhalda jafnvægi í efnahagsmálum á Íslandi. Til þess að svo geti orðið þarf hinsvegar gjörbreytta nálgun og meiri yfirvegun í ákvarðanatöku um stefnumörkun í efnahagsmálum. Það sem skiptir þar höfuðmáli er að almannahagsmunir séu settir ofar sérhagsmunum og stjórnmálin tileinki sér upplýsta og lýðræðislega umræðu.




