top of page
Search

Í hvað fara skattpeningarnir okkar?

  • Writer: Gunnar Axelsson
    Gunnar Axelsson
  • Jan 5
  • 5 min read

Updated: Jan 7

Nú þegar stjórnvöld hyggjast ráðast í það verkefni að hagræða í opinberum rekstri er viðeigandi að skoða í hvað útgjöldin fara í dag, þ.e. hvernig útgjöld hins opinbera skiptast niður á málaflokka. Það er eitthvað sem þarf reyndar alltaf að hafa augun á, ekki bara þegar ráðast á í átak af því tagi sem nú stendur til að gera.


Heildarútgjöld hins opinbera á Íslandi árið 2022 eftir málaflokkum, innbyrðis hlutdeild 

Heimild: Eurostat
Heimild: Eurostat

Ef ætlunin er að horfa til annarra landa og læra af þeim löndum sem hefur gengið betur að ráða við verkefnið, þ.e. landa sem búa við meiri stöðugleika í efnahagsmálum og þar sem rekstur hins opinbera er sömuleiðis í betra jafnvægi, þá er nærtækast að bera saman opinberar hagtölur þeirra landa við þær íslensku.


Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig heildarútgjöld hins opinbera (ríki, sveitarfélög og almannatryggingar), innan Evróusambandsins, á Íslandi og í völdum samanburðarlöndum, dreifðust hlutfallslega á árinu 2022, byggt á alþjóðlegu flokkunarkerfi (COFOG) sem flokkar útgjöldin eftir viðfangsefnum (málaflokkum), s.s. heilbrigðismál, menntamál o.s.fv.


Litakóðarnir í töflunni endurspegla dreifingu innan hvers málaflokks, þ.e. það land (eða svæði) sem hefur hæst hlutfall útgjalda í viðkomandi málaflokki er grænt en það sem er með lægsta hlutfallið er rautt.


Heildarútgjöld hins opinbera 2022 eftir málaflokkum, hlutfallsleg skipting %

Heimild: Eurostat
Heimild: Eurostat

Þó svo að heildarútgjöld hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu séu að jafnaði á svipuðu bili innan ríkja EES svæðisins, eða í heild rétt undir 50%, þá er það ekki algilt og því getur verið gagnlegt að skoða útgjöld hins opinbera í því samhengi líka. Í eftirfarandi töflu má sjá hversu mikil útgjöld hins opinbera voru sem hlutfall af vergri landsframleiðslu viðkomandi ríkis (svæðis), flokkað niður með sama hætti, þ.e. eftir málaflokkum.


Heildarútgjöld hins opinbera 2022 eftir málaflokkum, hlutfall af vergri landsframleiðslu %

Heimild: Eurostat
Heimild: Eurostat

Ísland sker sig úr á nokkrum sviðum 

Í sumum málaflokkum sker Ísland sig ekki mikið úr í samanburði við önnur Evrópuríki og í samanburði við hin Norðurlöndin. Á því eru þó nokkrar undantekningar.


Almenn opinber þjónusta

Þarna má t.d. sjá að af heildarútgjöldum hins opinbera á Íslandi fóru tæp 20% í málaflokkinn Almenn opinber þjónusta, sem er talsvert hærra hlutfall en í samanburðarlöndunum. Að meðaltali fór um 12% af heildarútgjöldum allra Evrópusambandsríkjanna í þennan málaflokk og á bilinu 9,1-14,5% hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.



ree

Undir þennan málaflokka falla ýmis útgjöld, s.s. útgjöld vegna utanríkismála, æðstu stjórnsýslu og löggjafarvalds, þróunaraðstoðar og ýmis önnur viðfangsefni. Stærsti undirflokkurinn hér á landi er hinsvegar fjármagnskostnaður, sem er meginskýringin á því hvers vegna Ísland sker sig svo rækilega frá öðrum löndum hvað útgjöld til þessa málaflokks varðar.


Varnarmál

Það þarf varla að koma neinum á óvart að herlausa landið Ísland skeri sig úr er kemur að útgjöldum til varnarmála en á árinu 2022 námu útgjöld til varnarmála um 0,2% af heildarútgjöldum hins opinbera á Íslandi, borið saman við 2,6% hjá Evrópusambandsríkjunum og 2,5-3,7% hjá hinum Norðurlöndunum.



ree

Menningar, íþrótta og trúmál

Ísland sker sig einnig nokkuð úr þegar kemur að útgjöldum til menningarmála, íþrótta- og tómstundamála og trúmála.


ree

Á meðan hin Norðurlurlöndin verja á bilinu 2,6-3,3% af heildarútgjöldum hins opinbera til þessa málaflokks verja íslensk stjórnvöld um 6,6% af útgjöldum hins opinbera til menningar-, íþrótta- og trúmála.


Þegar undirliggjandi stærðir eru skoðaðar kemur í ljós að munurinn liggur einkum á tveimur sviðum, þ.e. í framlögum til íþrótta og tómstundamála og menningarmála. Útgjöld hins opinbera vegna menningarmála nema um 2,3% af heildaútgjöldum hins opinbera hér á landi á meðan hlutfallið er 0,9% að meðaltali innan Evrópusambandsins og á bilinu 0,9-1,2% hjá hinum Norðurlöndunum. Útgjöld vegna íþrótta- og tómstundamála nema um 3,3% af heildarútgjöldum hins opinbera hér á landi, borið saman við 0,8% að meðaltali hjá ríkjum innan Evrópusambandsins og 0,9-1,3% hjá hinum Norðurlöndunum.


Sundlaugamenning íslendinga og rekstur almenningslauga og annarra íþróttamannvirkja er meginskýringin á því hvers vegna íþróttir- og tómstundir vega svo þungt í rekstri hins opinbera hér á landi í samanburði við önnur Evrópulönd. Hátt hlutfall útgjalda til menningarmála skýrist m.a. af rekstri svokallaðara almenningsbókasafna, sem telst til lögskyldra verkefna sveitarfélaga hér á landi. Eflaust spilar smæð landsins að einhverju leyti inn í líka er kemur að útgjöldum til menningarmála en hér á landi heyrir rekstur flestra menningarhúsa, s.s. leikhúsa, undir hið opinbera.



Menntamál

Ísland sker sig einnig aðeins úr þegar kemur að útgjöldum til menntamála en á árinu 2022 námu heildarútgjöld til menntamála hér á landi sem samsvaraði 14,9% af heildarútgjöldum hins opinbera. Innan ríkja Evrópusambandsins nam hlutfallið 9,5% og á bilinu 10,1-14,5% hjá hinum Norðurlöndunum. Þar er hlutfallið hæst í Svíðþjóð, 14,5%.


ree

Skýringanna á því hvers vegna hlutfallið er talsvert hærra hér á landi en að meðaltali í öðrum Evrópulöndum liggur í bæði útgjöldum til leik- og grunnskóla og útgjöldum til framhaldsskóla, sem eru almennt talsvert hærra hlutfall af heildarútgjöldum hins opinbera hér á landi en þekkist í öðrum Evrópulöndum (að Svíþjóð undanskildu).



Almannatryggingar- og velferðarmál

Í samanburði við önnur Evrópulönd sker Ísland sig einnig nokkuð úr þegar kemur að samanburði á útgjöldum til almannatrygginga og velferðarmála. Á árinu 2022 námu útgjöld til þessa málaflokks um 23,3% af heildarútgjöldum hins opinbera hér á landi en um 39,3% að meðaltali innan Evrópusambandsins og á bilinu 37,3-44,1% hjá hinum Norðulöndunum.


ree

Þegar þessi málaflokkur er skoðaður þarf að taka sérstaklega tillit til þess hvernig fyrirkomulag lífeyrismála er í viðkomandi löndum. Í íslenska lífeyriskerfinu gegna lífeyrissjóðir veigamiklu hlutverki varðandi samtryggingu. Þannig nam t.a.m. hlutdeild lífeyrissjóða í greiðslum ellilífeyris um 62% af af heildargreiðslum ellilífeyris árið 2022 og um fjórðungur greidds örorkulífeyris. En jafnvel þó svo að greiddum lífeyri lífeyrissjóða og rekstrarkostnaði þeirra (sem er umtalsverður) væri bætt við útgjöld hins opinbera, væri Ísland eftir sem áður talsvert langt undir meðaltali annarra Evópuríkja þegar kemur að hlutfallslegum útgjöldum til þessa málaflokks, og einnig sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Meginskýringin liggur því væntanlega ekki aðeins í mismunandi uppbyggingu kerfanna, heldur er skýringanna einnig að leita í hagstæðri aldurssamsetningu íslensku þjóðarinnar og mismunandi lífeyristökualdri, sem er tiltölulega hár á Íslandi í samanburði við önnur lönd, auk annarra réttindatengdra þátta sem eru auðvitað breytilegir milli landa. Með hækkandi lífaldri og breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar má gera ráð fyrir að útgjöld til þessa málalfokks muni vaxa talsvert á næstu árum og áratugum en breytt aldurssamsetning getur einnig leitt til aukinna útgjalda í öðrum málaflokkum, einkum á sviði heilbrigðismála og félagslegrar þjónustu.


Þar sem þessi málaflokkur er að jafnaði stærsti hlutinn af heildarútgjöldum hins opinbera í þeim löndum sem Ísland er að jafnaði borið saman við, þá hefur þessi munur eðlilega talsverð áhrif á alla tölfræði um opinber fjármál, m.a. á hlutfallslegt vægi annara málaflokka í heildarútgjöldum hins opinbera. Því er mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld, sem og aðrir, taki ávallt tillit til þessa fráviks við greiningu á hagtölum um opinber fjármál og sér í lagi þegar þau eru sett í samhengi við fjármál hins opinbera hjá öðrum löndum.


Ef þessi málaflokkurinn er undanskilinn eða útgjöld lífeyrissjóða skilgreind sem hluti af útgjöldum hins opinbera, þá fækkar frávikunum talsvert í samanburði útgjalda hins opinbera hér á landi við önnur Evrópulönd. Raunar eru þá bara tveir málaflokkar sem munu eftir sem áður skera sig verulega úr í samanburðinum, þ.e. útgjöld til varnarmála og útgjöld til mennningar- íþrótta og trúmála.


 
 

gunnaraxel.is

Höfundur og ábyrgðaraðili: Gunnar Axel Axelsson

 

Netfang: gunnaraxel@gmail.com

 

Sími: +354 6645553

bottom of page