top of page
Search

Hugleiðingar um opinberar hagtölur, þjóðarskútuna Ísland, ferðaþjónustu o.fl.

  • Writer: Gunnar Axelsson
    Gunnar Axelsson
  • Mar 26
  • 5 min read

Updated: Mar 27


ree

Sennilega taka því flestir orðið sem sjálfsögðum hlut í dag að hafa aðgengi að ítarlegum og áreiðanlegum hagtölum. Enda eru hagstofur heimsins eðli máls samkvæmt ekki mjög mikið að gera sig gildandi í samfélaginu, enda felst styrkur þeirra ekki síst í því að þær sinni hlutverki sínu á hlutlægan, faglegan og gegnsæjan hátt og njóti óumdeilanlega faglegs sjálfstæðis gagnvart öðrum stjórnvöldum, stofnunum og einkageiranum. Meginhlutverk þeirra er að tryggja að samfélagið sé upplýst og þar af leiðandi umræðan og ákvarðanatakan líka.


Þess vegna hafa stjórnvöld til að mynda ekki vald til að segja hagstofum í lýðræðisríkjum til um hvernig þær eigi að standa að hönnun, framleiðslu eða miðlun opinberra hagtalna. Þvert á móti eru slík inngrip, ef þau eiga sér stað, litin mjög alvarlegum augum og skilgreind sem aðför að einni af mikilvægustu grunnstoðum lýðræðisins í nútímasamfélögum. Sem betur fer eru slík afskipti eða tilraunir til slíkra afskipta fátíð í hinum vestræna heimi en slík tilvik koma þó alltaf upp öðru hvoru. Eitt þekktasta mál samtímans er sennilega það sem kom upp í Grikklandi á sínum tíma þegar þarlend stjórnvöld sökuðu Andreas Georgio, þáverandi hagstofustjóra Grísku hagstofunnar um að gefa út rangar og misvísandi hagtölur. Hagtölur sem ekki sýndu þá mynd sem þáverandi valdhafar vildu sjá og sýna kjósendum sínum. Ásakanir sem enginn fótur reyndist fyrir en drógu verulega úr trausti alþjóðasamfélagsins og lánadrottna á grískum stjórnvöldum.


Hér á landi hafa stjórnvöld almennt virt sjálfstæði Hagstofu Íslands og þá alþjóðsáttmála og reglur sem kveða á um sjálfstæði hennar og Ísland á aðild að.  Þó koma reglulega upp umræður í stjórnmálunum hér á landi sem fela í sér hugmyndir um afskipti af gerð opinberra hagtalna. Nærtækust og þekktust er án efa umræðan sem flestir kannast við og fjallar um þá hugmynd að “kippa húsnæðisliðnum út úr vísitölu neysluverðs” eins og það hefur gjarnan verið orðað í hinni pólitísku umræðu. Fyrir þann sem ekki kann skil á eðli og tilgangi mælinga á þróun verðlags kann slík hugmynd eflaust að hljóma ágætilega og sennilega hafa flestir ef ekki allir sem hafa varpað þeirri hugmynd fram gert það í góðri trú. Það að fella burt einn undirlið í mælingu á verðlagi eins og t.d. húsnæðisliðinn, hefur hinsvegar engin áhrif á þróun verðlags, heldur skekkir það einfaldlega bara mælingu á því sem ætlunin er að mæla. Með sömu rökum mætti nefnilega alveg eins halda því fram að ef Veðurstofunni væri gert að hætta að mæla úrkomu þá myndi veðrið skána til muna. Vissulega myndi yfirlitskortið í veðurfréttunum líta ögn betur út og einhverjum gæti þótt það til yndisauka að fá aðeins jákvæðari veðurspár eftir kvöldfréttirnar en það er hætt við því að sú gleði fjari hratt út þegar sá hinn sami vaknar næsta morgun og allt er á kafi í snjó. 



Bandarískar hagtölur í fortíð, nútíð og framtíð

Líkt og á svo mörgum sviðum hafa Bandaríkin verið leiðandi á ýmsum mikilvægum sviðum opinberrar hagskýrslugerðar.  Þannig voru til að mynda fyrstu þjóðhagsreikningarnir sem byggja á þeim grunni sem enn er byggt á gefnir út í bandaríkjunum árið 1947. Fyrsta útgáfa af samræmdu kerfi þjóðhagsreikninga var svo gefin út af Sameinuðu þjóðunum árið 1952.


Miðað við þá andlýðræðislegu þróun sem er að eiga sér stað í valdamesta ríki heimsins þá verður því miður að telja það líklegra en ekki að þarlend stjórnvöld muni fyrr en síðar stíga yfir þau mörk sem vestræn lýðræðisríki hafa dregið í kringum gerð opinberra hagtalna og byggja á Grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna um opinbera hagskýrslugerð. Í þeim reglum er m.a. kveðið á um að opinberar hagskýrslustofnanir skuli birta opinberar hagtölur samkvæmt vísindalegum stöðlum, gera þær aðgengilegar og setja fram á hlutlausan hátt til að tryggja rétt borgaranna til almennra upplýsinga. Þá er einnig kveðið á um að þær eigi að að hafa rétt til að gera athugasemdir við ranga túlkun og misnotkun hagtalna. Á það jafnt við um túlkun og notkun opinberra aðila jafnt sem einkaaðila.


Það er auðvelt að gera sér í hugarlund í hvaða stöðu Hagstofa Bandaríkjanna er um þessar mundir og þegar og ef aðgerðir stjórnvalda muni leiða til neikvæðrar þróunar í efnahagslífi landsins. Þá kæmi sennilega fæstum á óvart ef forseti landsins myndi andmæla niðurstöðum þeirra og jafnvel saka stjórnendur og starfsfólk stofnunarinnar um pólitíska aðför að sér. Ef það gerist má með réttu segja að ein mikilvægasta stoð lýðræðisins sé fallinn í viðkomandi landi, enda er varla hægt að tala um lýðræði nema borgaranir geti treyst því að þær upplýsingar sem þeim eru gefnar séu réttar og að stjórnvöld virði þau grundvallargildi og meginreglur sem opinber hagskýrslugerð á að byggja á. Þó auðvitað sé ekki hægt að segja nákvæmlega til um hvernig mál muni þróast í Bandaríkjunum á næstu mánuðum og misserum má telja það líklegra en ekki að grafið verði undan trausti almennings á hagtölum þar í landi og einnig og ekki síður trausti alþjóðasamfélagsins gagnvart þarlendri hagskýrslugerð.


Þjóðarskútan og ferðaþjónustan

Þó það sé ekki ríkjandi valdhafa að segja til um hvernig staðið er að gerð opinberra hagtalna er það hins vegar í höndum þeirra að taka stefnumarkandi ákvarðanir í efnahagsmálum, t.a.m. ákvarðanir um hvernig bregðast skuli við verðbólgu og öðru er snýr að þróun efnahagsmála. Það er jú Alþingi sem setur lög um hvað Seðlabankinn skuli gera til að ná og viðhalda stöðugu verðlagi og það er sömuleiðis í höndum Alþingis að taka ákvarðanir um ríkisfjármálin.


En jafnvel þó svo að þar liggi mikil völd og stjórnvöld hafi yfir að ráða öflugum verkfærum á borð við ákvörðun um stýrivexti, álagningu skatta,  útgjöld hins opinbera o.s.fv. þá er verkefni þeirra eftir sem áður sjaldnast jafn einfalt og oft er látið í veðri vaka, sér í lagi í orðræðu þeirra sem eru í stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Efnahagslífið er nefnilega ekki undir fullri stjórn opinberra valdhafa, enda siglir Þjóðarskútan Ísland ekki í einhverri tjörn við Alþingishúsið heldur er hún vaggandi á hafi úti og það hvernig henni gengur að komast á leiðarenda ræðst að verulegu leyti af ytri aðstæðum. Aðstæðum sem íslensk stjórnvöld hafa oft lítið ef nokkuð um að segja. Þegar vel gengur í efnahagslífinu hér á landi er skýringanna því oft að leita í því sem er að gerast í heiminum í kringum okkur og skýringanna á því hvers vegna illa árar er sömuleiðis oft að leita í hinu alþjóðlega efnahagsumhverfi sem við erum hluti af.  


Í ljósi þeirrar miklu óvissu sem ríkir í heiminum í dag og rekja má að stóru leyti til ákvarðana núverandi forseta Bandaríkjanna má fastlega gera ráð fyrir því að staða efnahagsmála í heiminum muni þróast til verri vegar á næstunni. Það á ekki síst við um atvinnugreinar eins og ferðaþjónustu en samkvæmt nýlegum fréttum hafa margir íbúar Evrópu endurskoðað ferðaplön sín til Bandaríkjanna og gera nýjustu spár ráð fyrir því að tekjur af ferðaþjónustu í Bandaríkjunum muni dragast verulega saman á þessu ári.


Þó vissulega sé athyglin mest á Bandaríkjunum hvað þetta snertir þá er ekki ólíklegt að ástandið í heiminum muni hafa talsverð áhrif á ferðaþjónustu í öðrum ríkjum, meðal annars á Íslandi. Það hversu mikil áhrif samdráttur í ferðaþjónustu á alþjóðavísu hefur á efnahag einstakra ríkja ræðst að sjálfsögðu að miklu leyti af því hversu umfangsmikil hún er sem hlutfall af landsframleiðslu viðkomandi lands. Þar er Ísland í hópi þeirra ríkja sem stóla hvað mest á ferðaþjónustu en árið 2024 er áætlað að hlutur ferðaþjónustu hafi numið 8,1% af vergri landsframleiðslu hér á landi og um 13% starfandi einstaklinga hér á landi hafi starfað innan þess sem skilgreint er sem einkennandi atvinnugreinar ferðaþjónustu. Það er því mikilvægt fyrir stjórnvöld og ferðaþjónustuaðila að vera vakandi yfir þróun mála og vera undirbúin fyrir mögulegan samdrátt í greininni og beinum og óbeinum áhrifum þess á efnahagslíf landsins.

 
 

gunnaraxel.is

Höfundur og ábyrgðaraðili: Gunnar Axel Axelsson

 

Netfang: gunnaraxel@gmail.com

 

Sími: +354 6645553

bottom of page