Áramótahugleiðing: Er smæð íslensks samfélag styrkleiki eða veikleiki eða bæði?
- Gunnar Axelsson
- Jan 2
- 4 min read
Updated: Jan 4

Því hefur gjarnan verið haldið fram að í smæðinni liggi helstu styrkleikar Íslensks samfélags. Eflaust er eitthvað til í því en í smæðinni liggja einnig rætur okkar stærstu áskoranna sem samfélags.
Ég reikna með að flestir ef ekki allir landsmenn hafi ítrekað spurt sig hvernig standi á því að í einu ríkasta landi heims (miðað við landsframleiðslu á mann) skuli grunnkerfin ekki virka betur en raun ber vitni hér á landi. Sem endurspeglast m.a. í því að aðeins lítill hluti landsmanna hefur aðgang að eigin heimilislækni, biðlistar eftir heilbrigðisþjónustu eru orðnir viðvarandi vandamál, mikilvægir innviðir eins og skólahúsnæði leik- og grunnskóla njóta ekki eðlilegs viðhalds, að almenningssamgöngur eru lakari en í mörgum vanþróuðum og fátækum löndum og svo mætti endalaust áfram telja.
Svarið við þessari spurningu er hvorki augljóst né einfalt en það ættu þó öllum að vera ljóst að það þarf að ráðast í alvöru samfélagslegar endurbætur á Íslandi.
Þó vissulega sé mikilvægt að huga að tekjuöflun hins opinbera og tryggja að það standi undir hlutverki sínu þá liggur lausnin ekki alltaf bara í því að hækka skatta og álögur á einstaklinga og fyrirtæki. Það þarf einnig og ekki síður að huga að aukinni skilvirkni og hagræðingu í opinberum rekstri hér á landi. Að forgangsraða rétt og hanna kerfin okkar þannig að samfélagið í heild njóti sem mests ávinnings af starfsemi þeirra.
Það kostar okkar fámenna samfélag t.a.m. mjög mikið að reka yfir 60 sveitarfélög og þeir fjármunir sem fara í alla þá yfirbyggingu sem því fylgir fara augljóslega ekki í önnur og mikilvægari verkefni, s.s. eflingu heilsugæslunnar, bætt starfsumhverfi leik- og grunnskóla, fjölgun hjúkrunarrýma o.s.fv.
Og á meðan ekki eru gerðar skýrari og afdráttarlausari kröfur, bæði til ríkis og sveitarfélaga, um að þau forgangsraði fjárveitingum til lögskyldra verkefna áður en fjármunum er ráðstafað til valkvæðra verkefna, þá munu kerfin okkar ekki byggjast upp með eðlilegum
hætti og í takt við þarfir samfélagsins. Það er nefnilega enginn sem lofar því fyrir kosningar að setja aukið fjármagn í viðhald á skólabyggingum, endurnýjun gatna o.s.fv. en þeir eru ansi margir sem lofa því að setja önnur verkefni í forgang, verkefni sem mörg hver geta vissulega talist samfélagslega jákvæð en teljast ekki hluti af grunnþjónustu hins opinbera.
Þetta eru engin ný sannindi og í gegnum tíðina hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að vinda ofan af því agaleysi sem einkennir stjórnkerfin okkar en þær hafa iðulega misheppnast. Sem dæmi hafa flestir ef ekki allir ráðherrar sveitarstjórnarmála síðustu ár og áratugi reynt að setja af stað vinnu við að fækka sveitarfélögum og skapa þannig aukið svigrúm til að tryggja íbúum landsins betri þjónustu en þegar til kastanna hefur komið þà hefur þingið ekki getað leitt í gegn nauðsynlegar breytingar vegna ótta þingmanna um að þær muni ekki njóta stuðnings kjósenda í þeirra heimahéraði. Þannig hafa staðbundnir sérhagsmunir, sem vissulega geta haft þýðingu og mikilvægt er að líta til þegar gerðar eru breytingar, ráðið úrslitum um það hvort heildin njóti eðlilegra lífskjara. Þannig verða almannahagsmunir í raun ítrekað undir í baráttunni við sérhagsmunagæsluna sem ég held að megi fullyrða að hafi átt sér talsvert fleiri málsvara á Alþingi en almannahagsmunir á þeim ágæta bæ.
En er þetta þá allt saman stjórnmálafólkinu að kenna, þingmönnum og kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum? Nei, það er of mikil einföldun, vandinn liggur í þeim ramma sem stjórnmálunum er settur. Ramma sem er orðinn gamall og götóttur og löngu úreltur.
Á meðan ekki gerðar ríkari kröfur um forgangsröðun er í raun búinn til freistnivandi sem leiðir til óskilvirkni í nýtingu þeirra takmörkuð fjármuna sem stjórnvöld hafa til ráðstöfunar hverju sinni. Ef þessum glufum í kerfinu okkar er lokað þá munu grunnkerfin okkar eflast og við gætum jafnvel upplifað þann fjarlæga veruleika að almannahagsmunir verði ofar á loforðalistum framboða en hinir klassísku sérhagsmunir sem oftar en ekki stjórna för í íslenskum stjórnmálum.
En til þess að slíkar breytingar geti átt sér stað, breytingar sem eru öllum til góðs, þá þarf oftar en ekki að skapa þverpólitíska samstöðu og það er ekki algeng sjón á íslenska stjórnmálasviðinu, þ.e. að fólk leggi hagsmuni síns flokks til hliðar í tengslum við nauðsynlegar kerfisbreytingar sem allir geta eða ættu að geta verið sammála um að séu nauðsynlegar. Þá er auðvitað freistandi fyrir þá sem eru í stjórnarandstöðu að ala á óánægjuröddunum, sem auðvitað munu alltaf koma upp í tengslum við stórar og stefnumarkandi ákvarðanir.
Og þannig stoppa stóru málin iðulega á Íslandi og niðurstaðan verður stöðnun. Eðlilegar framfarir í samgöngum, sbr. Borgarlínuverkefnið, hugmyndir um lestarsamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, ákvarðanir um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallar á Sv horninu, bygging nýs Landsspitala, löngu tímabærar breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og setning skynsamlegra viðmiða um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum og getu þeirra til að standa undir lögbundnum hlutverkum sínum, endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins, breytingar á kjördæmaskipan osfv. Listinn yfir stóru málin sem íslenskum stjórnmálum hefur reynst ómögulegt að takast á við og leiða til lykta, almenningi öllum til hagsbóta, er nefnilega orðinn ansi langur. Og það skýrir öðru fremur hvers vegna eitt ríkasta land heims er ekki betur statt en raun ber vitni.
Vonandi mun nýtt ár og nýtt og endurnýjað þing með fullt af nýju og góðu fólki bera með sér betri tíma, minni flokkadrætti og samstöðu um að gera gott samfélag betra.
Bestu óskir um friðsælt og kærleiksríkt nýtt ár






